16.9.2007 | 20:00
Mike Wieringo 1963 - 2007
Mike Wieringo er dáinn. Hann lést fyrir svolitlu síðan eða 12. Ágúst síðasliðin. Ég hafði fengið teiknimyndasögublað fyrir nokkrum dögum þar sem gaf að líta heila síðu tileinkaða minningu mannsins. Í ljósi þessa sá ég mig knúinn til að segja nokkur orð, og jafnvel endurvekja þennan vef með færslum úr heimi myndasagna.
Mike Wieringo, eða Ringo eins og hann var stundum kallaður var einn af færustu teiknurum sem mainstream myndasögugeirinn átti. Hann lést úr hjartaáfalli aðeins fjörtíu og fjögurra ára gamall. Hann var við hestaheilsu og kemur þetta eins og þruma úr heiðskíru lofti að hann skuli allt í einu detta niður dauður. Ég hef lesið óteljandi myndasögur þar sem hann hefur gefið karakterunum líf. Ég á fullt af yndislegum sögum og teikningum eftir hann sem sýnir hina sönnu snilld á bakvið verk hans. Fyrir ykkur hin þá getið þið séð teikningarnar hans hér á toppmyndinni því hann myndskreytti allar þessar Spiderman teikningar.
Wieringo gerði margt á ferlinum sínum. Hann hafði unnið fyrir öll stærstu fyrirtækin; Marvel, Dc Comics og Image til að nefna nokkur. Hann komst inn í leikinn með teikningum sínum fyrir Justice League International snemma á níunda áratugnum. Hann teiknaði Flash í fleiri ár með súperhöfundi Mark Waid þar sem þeir sköpuðu Bart Allen, eða Impulse. Impulse var lítill og ofvirkur krakkafrændi Barry Allens úr framtíðinni sem var með sömu hlaupakrafta og Flash. Núna nýverið hefur hann tekið við Flash titlinum og er hann vaxinn úr grasi frá ofvirka Impulse í fullorðinn Flash. Ég man einna helst eftir honum sem teiknaranum við Sensational Spiderman sem ég safnaði lengi vel í gamla daga. Hans stíll hæfði Sensational Spiderman titlinum frábærlega. Mjór og liðugur líkami Spidermans í höndum Wieringo gaf af sér frábærar teikningar, frábær blöð og æðislegar sögur. Að auki hefur hann teiknað Adventures of Superman, Tellos, Fantastic Four og nú síðast snéri hann sér aftur að Spiderman í Friendly Neighbourhood Spiderman bókunum.
Ég veit ekki af hverju, en mér finnst það svolítið sorglegt að hugsa til þess að ég eigi aldrei eftir að detta niður á einhverja flotta sögu myndskreytta af honum. Það er kannski asnalegt að hugsa til þess að ég taki því eitthvað persónulega til mín að maðurinn sé dáinn því jú, hann var nú bara nafn á blaði. Það er samt með fullri vissu sem ég segi að teiknimyndasöguheimurinn á eftir að sakna hans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2007 | 03:08
Free comic book day
Á morgun, eða réttara sagt í dag, laugardaginn 5. maí er fríkeypis myndasögudagurinn. Free comic book day er alþjóðlegt fyrirbæri og er búið að vera til í nokkur ár.
Því hvet ég alla til að fagna þessum helgidegi með okkur myndasögunördunum í Nexus á Hverfisgötu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.5.2007 | 22:26
Ný toppmynd
Uppfærði bannerinn hér fyrir ofan. Breytti úr Civil War þemanu í Spider-man þema því nú er Spider-man vika hjá mér. Bíð spenntur eftir nýju myndinni og í tilefni af henni setti ég upp hér nokkrar forsíður fyrir The Other söguna sem kom út fyrir nokkru. Hún var gefin út með nokkrum mismunandi forsíðum af honum í gegnum tíðina í mismunandi búningum.
Því gef ég ykkur að líta á nokkra þeirra myndskreytta af Mike Wieringo.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2007 | 20:41
Back in Black
Eins og kannski einhverjir vita þá er ég forfallinn Spider-man aðdáandi. Ég hef verið það síðan ég hætti að hoppa um í Turtles búning þegar ég var sex ára og mun örugglega halda áfram að vera það lengi vel. Persónan hrífur mig. Alger aumingi fær ógnarkrafta og í staðinn fyrir að hefna sín á öllum í kringum sig sem hafa einhvern tímann látið honum líða illa þá notar hann þá til góðs. Þó svo hann haldi vissulega áfram að vera frekar misheppnaður karakter úr búning.
Spider-man bækurnar eru í svokölluðum "auglýsingagír" fyrir nýju myndina og endurspeglast það í myndasögunum . "Back in Black" segir frá eftirmálum Civil War sögunnar þar sem Peter Parker er lagalega orðinn glæpamaður í augum ríkisins. Sjá meira um Civil War í greininni hér fyrir neðan um Captain America. Í núverandi sögunum sem hafa gengið á í nokkur ár hefur mikið komið fyrir Peter Parker. Hann hefur komist að mikilli arfleifð sem hann og kraftar sínir eru partur af, hann hefur dáið og komið aftur til lífsins, misst heimili sitt, afhjúpað sig fyrir alþjóð og barist við marga af sínum bestu vinum. Ætli þessi saga sé ekki einskonar skírskotun í það að hann sé leiður á óréttlætinu í kringum sig og að hann sé hættur að láta vaða yfir sig. Þegar May frænka hans verður fyrir leyniskyttuskoti í Amzing Spider-man #539 snappar hann. Öll hans góðvild og samúð fjúka fyrir uppsafnaðari reiði og gremju í garð allra sem á vegi hans verða. Til að tákngera þessa skapgerðarbreytingu hjá honum klæðist hann svarta búningnum sínum á ný.
Í Amazing #539 eru kaflaskil í persónueinkennum Peter Parkers. Ég hef lesið ýmsar Spider-man sögur í gegnum tíðinna og tel mig vera ágætlega vitur um hans sögu og persónu en aldrei hef ég lesið aðra eins reiði hjá honum. Mér finnst alveg æðislegt þegar myndasögurhöfundar leyfa sér að bregða aðeins útfrá sögueinkennum og láta hann bregðast á mannlegan hátt við ótrúlegum aðstæðum í kringum sig. Alveg hreint frábær og trúverðug saga sem er ágætis stökkpallur fyri Back in black söguna.
Í Sensational Spider-man #36 er önnur saga sem á sér stað. Margir Spider-man karakterar leika lausir um borgina, í hinum og þessum búningum hins ruanverulega Spider-man. Peter Parker á fullt í fangi með að vera undir radarnum hjá löggunni án þess að þurfa að hjálpa þessum greyjum sem deyja smátt og smátt af þessum kröftum sem þeim hafa verið gefnir. Allir þessir strákar eru teknir af götunni, þeim gefið að éta og síðan eftir ofurkraftasýkingu eru þeir sendir út í umheiminn. Þetta er allt partur af félagsfræðitilraun brenglaðs vísindamanns sem vill komast að því hvað það er sem lætur ungan munaðarleysingja eins og Peter Parker nota krafta sína til góðs. Hvað breytu þarf til að hann misnoti ekki svona gífurlega krafta og hefni sín á þeim sem hafa níðst á honum allt sitt líf. Mér finnst þetta athyglisverð pæling inn í ofurhetjusögu þar sem kemur svona trúverðugt element inn í ástæðu vonda kallsins til að vera illur. Því í heimi okkar í dag samanborið við vonda kalla silfuraldarinnar(1960-70) þá hafa oftar en ekki þeir illu siðferðislega ástæðu fyrir gjörðum sínum. Þeir eru ekki bara af-því-bara vondir. Oftar en ekki getum við skilið ástæðu hins vonda til illverka, þó svo að illverkin séu oft mjög brengluð og mjög auðvelt væri fyrir hinn geðheila að finna betri lausn á vandamálum þeirra.
Því er gaman að fylgjast með Back in Black sögunum því Peter Parker er að kljást við vondan kall sem stjórnast af vísindalegum gruni og með réttlætanlegar rannsóknir að leiðarljósi og einnig vegna þess að Peter Parker fetar nú hina mjóu línu milli góðs og ills og í hans hugarátandi er mjög auðvelt fyrir hann að falla ofan í gryfju hins illa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2007 | 01:12
Topplisti
Teiknimyndasögur geta oft verið illskiljanlegar. Þær virðast oft hafa endalausa söguþræði, tilvísanir enn lengur aftur í tímann og persónur sem erfitt er að komast inn í ef þú byrjar að lesa í blaði númer #60. Fyrir þá sem kunna sig ekki í þessum heimi og geta ekki komist inn í myndasögur vegna þessa hef ég ákveðið að setja saman pínulítinn lista yfir hvað væri vert þess að skoða. Ég er samt í rauninni bara að skoða upp í hillu hjá mér og ákveða hvað mér finnst að þið ættuð að lesa...
Í engri sérstakri röð.
- Understanding Comics eftir Scott McCloud
- Ef þú hefur veirð að lesa myndasögur um nokkurt skeið. Hefur kannski gert það í æsku en vilt endurnýja kynni þín við þetta form þá er þetta frábær lesning. Þetta er hálfgerð fræðibók um myndasöguformið. McCloud fer djúpt ofan í fræðigreinina, hvernig myndasögur eru settar upp, hvað er ekki sagt og hvað hlutverk lesenda er. Hann fer ofan í nokkra stíla, listamenn og er einhver besta heimild um myndasögur sem fræðigrein.
- Marvels eftir Kurt Busiek og málað af meistara Alex Ross.
- Frábær saga um fæðingu ofurhetja í Marvel heiminum. Busiek skrifar söguna útfrá sjónarhorni fréttaljósmyndara sem verður vitni að því þegar ofurhetjur koma fyrst fram á sjónarsviðið. Þessi bók er alveg stórbrotið listaverk vegna teikninga hins hæfileikaríka Alex Ross. Hans stíll er svolítið frábrugðinn annara því hann málar með Gouache litum allar myndirnar og nær því mjög raunverulegu ljósmynda yfirbragði. Frábær lesning fyrir þá sem vilja sjá annað sjónarhorn á öllum frægustu hetjum Marvel heimsins.
- 100 Bullets: First Shot, Last Call eftir Brian Azzarello og Eduardo Risso.
- Fyrsta bindi glæpasagnanna 100 Bullets. Fyrsta hefti fjallar aðallega um mann að nafni Graves sem fer á milli tilviljanakenndra persóna og býður þeim tækifæri um hefnd á einhverju einu sem hafði komið fyrir og eyðilagt á einn eða annan hátt líf þessara persóna. Sagan verður alltaf flóknari og flóknari eftir því sem bindin verða fleiri og er þessi titill enn í gangi. Svo virðist sem engin tilviljun sé á einu né neinu og er þetta einhver besta glæpasagnamyndasaga sem hefur komið út í langan tíma. Ritstíll Azzarello og myndleiðni Risso haldast í hendur og gefa sterka heildarímynd á sögunni. Mæli sérstaklega með þessum titli fyrir þá sem hafa engan áhuga á ofurhetjum og vilja bara ofbeldi, kynlíf og peninga í sögunum sínum.
- Spiderman: Reign eftir Kaare Andrews of Jose Villarrubia
- Það setja allir The Dark Knight Returns eftir Frank Miller inn á alla svona lista. Þar sem ég hef bara pláss fyrir eina Frank Miller sögu þá hef ég ákveðið að nefna þessa Spiderman sögu í staðinn. Líkt og í TDKR þá er sögusviðið framtíðin og virðist sem heimurinn hafi losað sig við ofurhetjur af öllu tagi, hvort sem þær hafi verið góðar eða slæmar. Söguhetjan er gamall og veikburða Peter Parker sem fyrir löngu hefur gefist upp á ofurhetjuímynd sinni, lagst í helgan stein og syrgir konu sína. En í eitt loka skipti þá þarfnast New York borg veggjaklöngrarans til að verjast hættu sem gæti gleypt þau öll. Ég keypti þessa bók fyrir stuttu síðan og ég á bara mjög erfitt með að slíta mig í burt frá henni. Ég teygi mig oft upp í hillu og les sumar síður aftur og aftur. Hún er sorgleg, tilfinningarík og þrungin spennu. Það er bara eitthvað við Peter Parker sem gamlan og slitinn ellilífeyrisþega hreytandi af sér brandara sem heillar mig. Ég hafði aldrei heyrt um þennan höfund áður en ég mun fylgjast með honum í framtíðinni. Teikningarnar í henni eru hálfgerð blanda af tölvugrafík og teiknilist sem gefur mjög áhugaverða útkomu.
- Transmetropolitan: Back on the Street eftir Warren Ellis
- Sjúklegasta, fyndnasta, skringilegasta og siðbrenglasta myndasaga sem ég hef lesið. Framtíðarheimur þar sem kynskiptingar skipta frekar um tegund en kyn, þríeygðir reykjandi kettir, sjálfsalar á dópi og í miðjunni einn siðbrenglaðasti blaðamaður framtíðarheimsins með sannleikann að vopni. Spider Jerusalem gæti verið Hunter Thompson í Fear and Loathing in the Future. Nema með fleiri eiturlyfjum.
- Origin eftir Bill Jemas, Joe Quesada, Paul Jenkins og Andy Kubert
- Vinsælasti og dularfyllsti stökkbreyttlingur allra tíma með upprunasögu sína. Í nokkra áratugi vissi engin hvaðan Wolverine kæmi, ekki einu sinni hann sjálfur. En með þessu úrvalsliði hæfileika koma þeir fallegri en jafnframt sorglegri upprunasögu hans til skila. Frá barni að villidýri fylgjum við honum eftir. Mörgum spurningum er svarað; hvaðan kom hann, hver er hann og hvað gerði hann að því sem hann er. Frábær saga fyrir þá sem vilja skyggnast á bakvið tjöldin hjá Wolverine.
- Sandman eftir Neil Gaiman
- Mögulega besta myndasaga allra tíma. Þessi farsæli rithöfundur vann fjöldann allan af bókmenntaverðlaunum fyrir sögur sínar af Morpheus, eða Óla Lokbrá, konungi drauma. Blanda af fantasíu, nútíma raunveruleika og tilvísanir í nær allar goðsagnarverur sem til eru. Ef það er einungis ein saga sem harðir bókmenntaáhugamenn ættu að lesa þá ætti það að vera þessi. Það komast fáir með tærnar þar sem Gaiman hefur hælanna þegar kemur að þessari skáldsagnatýpu. Fantasy-fusion af hæsta gæðaflokki.
- Preacher eftir Garth Ennis & Steve Dillon
- Predikarinn Jesse Custer hefur orð guðs. Hann getur látið hvern sem er hlýða skipunum sínum því hann hýsir bastarðafkvæmi djöfuls og engils innra með sér. Saman með byssuglaðri kærustu sinni og viskýdrekkandi írskri vampíru eru þeir í krossferð í leit að Guði sem þóttist geta yfirgefið himnaríki án vandkvæða. Garth Ennis og Steve Dillon eru hér með einhverja blóðugustu og öfgakenndustu sögu fyrr og síðar.
- Batman: Year One eftir Frank Miller
- Upprunasaga Batman. Hvernig hann varð Batman og hvernig fólkið sem aðstoðar hann enn í dag hjálpaði að móta hann. Batman Begins tók rosalega mikið úr þessari sögu í handrit sitt. Frank Miller kemur persónunni Batman, karakternum Bruce Wayne og drifkraftinum sem drífur þá báða áfram til skila mjög vel. Við kynnumst þjálfun, byrjendamistökum og loks fæðingu eins hræðilegasta tákn Gotham borgar.
Vissulega væri hægt að halda áfram með lista eins og þennan nær endalaust. En þetta er bara brot af því sem kemur upp í hugann þegar hugsað er um virkilega góðar myndasögur. Þú þarft í raun og veru enga fyrri reynslu til að geta notið þessara bóka hér fyrir ofan, nema bara að passa að það sé byrjað á byrjununni.
En aðrar myndasögur sem má nefna í samhengi: Daredevil: Man Withour Fear serían eftir Brian Michael Bendis, V for Vendetta eftir Alan Moore, Tales from the Clerks eftir Kevin Smith, Kingdom Come eftir Mark Waid, Maus eftir Art Spiegelman(eina myndasagan sem hefur hlotið Pulitzer verðlaunin) og svo mætti lengi telja. Listinn var aðallega ætlaður fyrir þá sem vildu koma sér inn í einhverjar góðar myndasögur án vesens en ekki endilega listi yfir bestu, eða virtustu myndasögur allra tíma. Það væri endalaus listi, sem væri aldrei án rifrildis eða rökræðna og mundi enda í einni súpu á gólfinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2007 | 22:52
Raunverulegt Kryptonít
Nú virðist sem sá steinn sem getur grandað hinni kraftmestu ofurhetju allra tíma, Superman hafi fundist hér í heimi. Fox fréttastöðin greinir hér frá að grjóttegund sem inniheldur sömu uppbyggingu og Kryptónít hafi fundist í serbneskri námu. Samkvæmt vísindamönnum sem fundu þessa bergtegund þá passar uppbygging hennar nær alveg við lýsinguna á grjótinu sem Lex Luthor stelur úr safni í Metropolis í Superman myndinni Superman Returns frá árinu 2006.
Grjót þetta er reyndar hvítt á lit, ólíkt hinu hefðbundna græna kryptoníti sem sýgur alla krafta úr Superman og dregur hann til dauða. Samkvæmt Wikipedia er samt til hvítt Kryptonít sem hefur þann eiginleika að drepa allt plöntulíf. Öruggt má samt telja að þessi bergtegund muni ekki granda neinu plöntulífi á næstunni.
24.4.2007 | 21:58
Æ fleiri tengsl við raunveruleikann
Sumt sýnist hverjum um raunveruleika teiknimyndasagna. Í ofurhetjusýndarleika teiknimyndasagna er vissulega raunveruleiki sem tengist hinum töfraraunsæislegum ofurhetjum skáldskaparins. Marvel hetjurnar búa nær allar í New York borg. Sem fer að verða svolítið skrítið, því maður færi nú að vera þreyttur að öllum þessum skemmdarverkum sem verða á borginni ef maður byggi í þeim heimi. Stundum ná angar töfraraunsæis út í okkar raunveruleika og þóttu endalok einnar stærstu ofurhetju samtímans nógu fréttnæm til að ná í heimspressuna.
Fyrir nokkrum mánuðum var Captain America, Steve Rogers, einhver ástsælasta þjóðarhetja Bandaríkjanna í Marvel heiminum tekinn af lífi JFK-style þegar hann var skotinn af leyniskyttu þegar hann var á leið upp ráðhúströppurnar í New York. Þetta gerðist eftir hina stóru sögu Civil War eftir Mark Millar þar sem ofurhetjuskráningarlög gerðu það að verkum að ofurhetjusamfélagið klofnaði í tvennt. Bræður börðust og bestu vinir klofnuðu nú í tvær fylkingar sem heyjuðu stríð vegna þessara skráningarlaga. Það var krafist af hetjum að gefa upp nafn sitt og persónu til bandaríska ríkisins og mörgum hetjum fannst vera gert að þjóðarréttindum sínum. Sá sem neitaði að skrá sig varð ólöglegur ofurkraftahafi og var hundeltur ríkinu ásamt hinum skráðu ofurhetjum, sem oftar en ekki fangelsuðu sína eigin vini.
Captain America gerðist andstæðingur skráningarlaganna og varð uppreisnarseggur í sínu eigin landi. Landi sem fána þess hann bar á búningi sínum. Það var ekki fyrr en hann sá hversu mikinn skaða bardagi og stríð þessara kraftmiklu ofurhetjuherja gerði að hann gafst upp. Á leið til dómstóla þar sem átti að rétta yfir honum sem glæpamanni hlaut hann áðurnefnd örlög.
Dramatíkin við þessa sögu er mikil. Það er varpað upp spurningum í þessari sögu sem eiga sér margar hliðstæður í raunveruleikanum, t.d. í Mccarthyisma fimmta áratugarins og hinn nútíma Patriot Act. Civil War: Frontline sögurnar eftir Paul Jenkins koma vel til skila óréttlæti þessara skráningarlaga og líkir hann Civil War sögunni m.a. við borgarastyrjöld Rómar til forna, Bandaríkjanna og annars óréttlætis sem hlýst af stríði í heiminum.
Eins og kom fram þótti stríðið á blaðsíðunum og fórnarlömb þess alveg þess virði að fjalla um í heimspressu okkar sem lifum í raunveruleikanum. Að lokum hvet ég ykkur til að hlusta á það sem bæði CNN og BBC höfðu að segja um hlutina.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2007 | 10:21
Teiknimyndasögur
Ég sá frétt um hóp stráka í fréttablaðinu í gær. Þessir drengir höfðu mikið dálæti á tölvuleikjum og höfðu ákveðið að búa til vef til umfjöllunnar um þá og hvaðeina. Minnir að vefurinn heitir www.gameover.is
Það fékk mig til að hugsa um talsverða breytingu á þessum vef. Þessum vef sem er eiginlega svo lítilsverður að það að tala um breytingu á honum er eiginlega hálfgerður brandari. Það eru nefnilega engar færslur á honum sjáðu til.
En ég ætla að reyna að láta það breytast því ég, líkt og tölvuleikjatöffararnir, á mér gífurlega stórt áhugamál. Áhugamál sem ég á mjög erfitt með að finna mér félaga til viðræðu við. Nefnilega teiknimyndasögur, grafískar skáldsögur eða comics. Alla tíð hef ég haft dálæti af teiknimyndasögum, fyrst um sinn öllum ofurhetjum sem þessar sögur gáfu af sér í gegnum tíðina. Síðar komst maður inn í fullorðinslegri sögur þó að maður hafi aldrei sleppt beislinu af ofurhetjunum.
Það er nefnilega mál með vexti að ég trúi að ofurhetjur séu til, þó ég viti að þær séu ekki partur af raunveruleikanum sem við lifum í. Það hljómar kannski svolítið skringilega, eða þverstæðukennt en það er spurningin um að trúa á tákn, eða ímynd. Imynd ofurhetjunnar er eitthvert sterkasta tákn seinustu aldar og hefur átt þátt í að móta margar kynslóðir fólks sem hefur fylgst mjög grannt með þróun sinnar hetju í gegnum árin. Allt frá komu Superman árið 1938 til dauða Captain America á okkar dögum hefur teiknimyndasögumenning farið vaxandi í heimi fjölmiðla.
Því fyrst um sinn var ekki litið á teiknimyndasögur sem almennilegar bókmenntir. Þetta voru bara "funnybooks", skrípa og pulp sögur. Eitthvað fyrir krakka til þess að drepa tímann og hætta að ónáða foreldra sína. Í bandarískri menningu óx menningin samt ásmeginn mjög fljótlega og voru comics notaðar í stríðinu, t.d. til að skemmta herlýðnum og bæða móralinn í stríðinu. Þar sáust Batman og Robin berjast við Japani og Captain America lamdi Hitler í andlitið. Þetta voru þjóðernishetjur sem hjálpuðu okkar(þeirra Bandaríkjamanna í raun og veru) rauntímahetjum gegnum erfiða tíma.
Síðan þá hafa tímarnir breyst. Vondu kallarnir eru ekki bara vondir af því bara. Þeir hafa oftast einhverja raunverulega ástæðu fyrir illsku sinni. Oftar en ekki byggt á siðferðislegum grundvelli sem hinn venjulegi lesandi verður að gera upp við sig hvort sé næg ástæða fyrir gjörðum hans. Ég fer yfir illsku og siðferðislegan réttleika næstu greinum. Þetta er einungis kynning á því efni sem þessi vefur mun hafa upp á að bjóða.
Í næstu greinum hafði ég hugsað mér að fjalla um nokkrar af mínum uppáhalds teiknimyndasögum og gildi þeirra fyrir mig og hvaða áhrif sumar sögur hafa haft á þjóðfélagið.
Nokkrar hugmyndir: Civil War, Dauði Superman og dauði Captain America, þjóðfélagsrýni og fordómar með hliðstæðu í X-men. Nokkrar týpur eða Genre af sögum, gagnrýni á comics og bara allt það sem dettur inn í huga minn.
Þangað til næst...
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)