25.4.2007 | 01:12
Topplisti
Teiknimyndasögur geta oft verið illskiljanlegar. Þær virðast oft hafa endalausa söguþræði, tilvísanir enn lengur aftur í tímann og persónur sem erfitt er að komast inn í ef þú byrjar að lesa í blaði númer #60. Fyrir þá sem kunna sig ekki í þessum heimi og geta ekki komist inn í myndasögur vegna þessa hef ég ákveðið að setja saman pínulítinn lista yfir hvað væri vert þess að skoða. Ég er samt í rauninni bara að skoða upp í hillu hjá mér og ákveða hvað mér finnst að þið ættuð að lesa...
Í engri sérstakri röð.
- Understanding Comics eftir Scott McCloud
- Ef þú hefur veirð að lesa myndasögur um nokkurt skeið. Hefur kannski gert það í æsku en vilt endurnýja kynni þín við þetta form þá er þetta frábær lesning. Þetta er hálfgerð fræðibók um myndasöguformið. McCloud fer djúpt ofan í fræðigreinina, hvernig myndasögur eru settar upp, hvað er ekki sagt og hvað hlutverk lesenda er. Hann fer ofan í nokkra stíla, listamenn og er einhver besta heimild um myndasögur sem fræðigrein.
- Marvels eftir Kurt Busiek og málað af meistara Alex Ross.
- Frábær saga um fæðingu ofurhetja í Marvel heiminum. Busiek skrifar söguna útfrá sjónarhorni fréttaljósmyndara sem verður vitni að því þegar ofurhetjur koma fyrst fram á sjónarsviðið. Þessi bók er alveg stórbrotið listaverk vegna teikninga hins hæfileikaríka Alex Ross. Hans stíll er svolítið frábrugðinn annara því hann málar með Gouache litum allar myndirnar og nær því mjög raunverulegu ljósmynda yfirbragði. Frábær lesning fyrir þá sem vilja sjá annað sjónarhorn á öllum frægustu hetjum Marvel heimsins.
- 100 Bullets: First Shot, Last Call eftir Brian Azzarello og Eduardo Risso.
- Fyrsta bindi glæpasagnanna 100 Bullets. Fyrsta hefti fjallar aðallega um mann að nafni Graves sem fer á milli tilviljanakenndra persóna og býður þeim tækifæri um hefnd á einhverju einu sem hafði komið fyrir og eyðilagt á einn eða annan hátt líf þessara persóna. Sagan verður alltaf flóknari og flóknari eftir því sem bindin verða fleiri og er þessi titill enn í gangi. Svo virðist sem engin tilviljun sé á einu né neinu og er þetta einhver besta glæpasagnamyndasaga sem hefur komið út í langan tíma. Ritstíll Azzarello og myndleiðni Risso haldast í hendur og gefa sterka heildarímynd á sögunni. Mæli sérstaklega með þessum titli fyrir þá sem hafa engan áhuga á ofurhetjum og vilja bara ofbeldi, kynlíf og peninga í sögunum sínum.
- Spiderman: Reign eftir Kaare Andrews of Jose Villarrubia
- Það setja allir The Dark Knight Returns eftir Frank Miller inn á alla svona lista. Þar sem ég hef bara pláss fyrir eina Frank Miller sögu þá hef ég ákveðið að nefna þessa Spiderman sögu í staðinn. Líkt og í TDKR þá er sögusviðið framtíðin og virðist sem heimurinn hafi losað sig við ofurhetjur af öllu tagi, hvort sem þær hafi verið góðar eða slæmar. Söguhetjan er gamall og veikburða Peter Parker sem fyrir löngu hefur gefist upp á ofurhetjuímynd sinni, lagst í helgan stein og syrgir konu sína. En í eitt loka skipti þá þarfnast New York borg veggjaklöngrarans til að verjast hættu sem gæti gleypt þau öll. Ég keypti þessa bók fyrir stuttu síðan og ég á bara mjög erfitt með að slíta mig í burt frá henni. Ég teygi mig oft upp í hillu og les sumar síður aftur og aftur. Hún er sorgleg, tilfinningarík og þrungin spennu. Það er bara eitthvað við Peter Parker sem gamlan og slitinn ellilífeyrisþega hreytandi af sér brandara sem heillar mig. Ég hafði aldrei heyrt um þennan höfund áður en ég mun fylgjast með honum í framtíðinni. Teikningarnar í henni eru hálfgerð blanda af tölvugrafík og teiknilist sem gefur mjög áhugaverða útkomu.
- Transmetropolitan: Back on the Street eftir Warren Ellis
- Sjúklegasta, fyndnasta, skringilegasta og siðbrenglasta myndasaga sem ég hef lesið. Framtíðarheimur þar sem kynskiptingar skipta frekar um tegund en kyn, þríeygðir reykjandi kettir, sjálfsalar á dópi og í miðjunni einn siðbrenglaðasti blaðamaður framtíðarheimsins með sannleikann að vopni. Spider Jerusalem gæti verið Hunter Thompson í Fear and Loathing in the Future. Nema með fleiri eiturlyfjum.
- Origin eftir Bill Jemas, Joe Quesada, Paul Jenkins og Andy Kubert
- Vinsælasti og dularfyllsti stökkbreyttlingur allra tíma með upprunasögu sína. Í nokkra áratugi vissi engin hvaðan Wolverine kæmi, ekki einu sinni hann sjálfur. En með þessu úrvalsliði hæfileika koma þeir fallegri en jafnframt sorglegri upprunasögu hans til skila. Frá barni að villidýri fylgjum við honum eftir. Mörgum spurningum er svarað; hvaðan kom hann, hver er hann og hvað gerði hann að því sem hann er. Frábær saga fyrir þá sem vilja skyggnast á bakvið tjöldin hjá Wolverine.
- Sandman eftir Neil Gaiman
- Mögulega besta myndasaga allra tíma. Þessi farsæli rithöfundur vann fjöldann allan af bókmenntaverðlaunum fyrir sögur sínar af Morpheus, eða Óla Lokbrá, konungi drauma. Blanda af fantasíu, nútíma raunveruleika og tilvísanir í nær allar goðsagnarverur sem til eru. Ef það er einungis ein saga sem harðir bókmenntaáhugamenn ættu að lesa þá ætti það að vera þessi. Það komast fáir með tærnar þar sem Gaiman hefur hælanna þegar kemur að þessari skáldsagnatýpu. Fantasy-fusion af hæsta gæðaflokki.
- Preacher eftir Garth Ennis & Steve Dillon
- Predikarinn Jesse Custer hefur orð guðs. Hann getur látið hvern sem er hlýða skipunum sínum því hann hýsir bastarðafkvæmi djöfuls og engils innra með sér. Saman með byssuglaðri kærustu sinni og viskýdrekkandi írskri vampíru eru þeir í krossferð í leit að Guði sem þóttist geta yfirgefið himnaríki án vandkvæða. Garth Ennis og Steve Dillon eru hér með einhverja blóðugustu og öfgakenndustu sögu fyrr og síðar.
- Batman: Year One eftir Frank Miller
- Upprunasaga Batman. Hvernig hann varð Batman og hvernig fólkið sem aðstoðar hann enn í dag hjálpaði að móta hann. Batman Begins tók rosalega mikið úr þessari sögu í handrit sitt. Frank Miller kemur persónunni Batman, karakternum Bruce Wayne og drifkraftinum sem drífur þá báða áfram til skila mjög vel. Við kynnumst þjálfun, byrjendamistökum og loks fæðingu eins hræðilegasta tákn Gotham borgar.
Vissulega væri hægt að halda áfram með lista eins og þennan nær endalaust. En þetta er bara brot af því sem kemur upp í hugann þegar hugsað er um virkilega góðar myndasögur. Þú þarft í raun og veru enga fyrri reynslu til að geta notið þessara bóka hér fyrir ofan, nema bara að passa að það sé byrjað á byrjununni.
En aðrar myndasögur sem má nefna í samhengi: Daredevil: Man Withour Fear serían eftir Brian Michael Bendis, V for Vendetta eftir Alan Moore, Tales from the Clerks eftir Kevin Smith, Kingdom Come eftir Mark Waid, Maus eftir Art Spiegelman(eina myndasagan sem hefur hlotið Pulitzer verðlaunin) og svo mætti lengi telja. Listinn var aðallega ætlaður fyrir þá sem vildu koma sér inn í einhverjar góðar myndasögur án vesens en ekki endilega listi yfir bestu, eða virtustu myndasögur allra tíma. Það væri endalaus listi, sem væri aldrei án rifrildis eða rökræðna og mundi enda í einni súpu á gólfinu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.