3.5.2007 | 20:41
Back in Black
Eins og kannski einhverjir vita þá er ég forfallinn Spider-man aðdáandi. Ég hef verið það síðan ég hætti að hoppa um í Turtles búning þegar ég var sex ára og mun örugglega halda áfram að vera það lengi vel. Persónan hrífur mig. Alger aumingi fær ógnarkrafta og í staðinn fyrir að hefna sín á öllum í kringum sig sem hafa einhvern tímann látið honum líða illa þá notar hann þá til góðs. Þó svo hann haldi vissulega áfram að vera frekar misheppnaður karakter úr búning.
Spider-man bækurnar eru í svokölluðum "auglýsingagír" fyrir nýju myndina og endurspeglast það í myndasögunum . "Back in Black" segir frá eftirmálum Civil War sögunnar þar sem Peter Parker er lagalega orðinn glæpamaður í augum ríkisins. Sjá meira um Civil War í greininni hér fyrir neðan um Captain America. Í núverandi sögunum sem hafa gengið á í nokkur ár hefur mikið komið fyrir Peter Parker. Hann hefur komist að mikilli arfleifð sem hann og kraftar sínir eru partur af, hann hefur dáið og komið aftur til lífsins, misst heimili sitt, afhjúpað sig fyrir alþjóð og barist við marga af sínum bestu vinum. Ætli þessi saga sé ekki einskonar skírskotun í það að hann sé leiður á óréttlætinu í kringum sig og að hann sé hættur að láta vaða yfir sig. Þegar May frænka hans verður fyrir leyniskyttuskoti í Amzing Spider-man #539 snappar hann. Öll hans góðvild og samúð fjúka fyrir uppsafnaðari reiði og gremju í garð allra sem á vegi hans verða. Til að tákngera þessa skapgerðarbreytingu hjá honum klæðist hann svarta búningnum sínum á ný.
Í Amazing #539 eru kaflaskil í persónueinkennum Peter Parkers. Ég hef lesið ýmsar Spider-man sögur í gegnum tíðinna og tel mig vera ágætlega vitur um hans sögu og persónu en aldrei hef ég lesið aðra eins reiði hjá honum. Mér finnst alveg æðislegt þegar myndasögurhöfundar leyfa sér að bregða aðeins útfrá sögueinkennum og láta hann bregðast á mannlegan hátt við ótrúlegum aðstæðum í kringum sig. Alveg hreint frábær og trúverðug saga sem er ágætis stökkpallur fyri Back in black söguna.
Í Sensational Spider-man #36 er önnur saga sem á sér stað. Margir Spider-man karakterar leika lausir um borgina, í hinum og þessum búningum hins ruanverulega Spider-man. Peter Parker á fullt í fangi með að vera undir radarnum hjá löggunni án þess að þurfa að hjálpa þessum greyjum sem deyja smátt og smátt af þessum kröftum sem þeim hafa verið gefnir. Allir þessir strákar eru teknir af götunni, þeim gefið að éta og síðan eftir ofurkraftasýkingu eru þeir sendir út í umheiminn. Þetta er allt partur af félagsfræðitilraun brenglaðs vísindamanns sem vill komast að því hvað það er sem lætur ungan munaðarleysingja eins og Peter Parker nota krafta sína til góðs. Hvað breytu þarf til að hann misnoti ekki svona gífurlega krafta og hefni sín á þeim sem hafa níðst á honum allt sitt líf. Mér finnst þetta athyglisverð pæling inn í ofurhetjusögu þar sem kemur svona trúverðugt element inn í ástæðu vonda kallsins til að vera illur. Því í heimi okkar í dag samanborið við vonda kalla silfuraldarinnar(1960-70) þá hafa oftar en ekki þeir illu siðferðislega ástæðu fyrir gjörðum sínum. Þeir eru ekki bara af-því-bara vondir. Oftar en ekki getum við skilið ástæðu hins vonda til illverka, þó svo að illverkin séu oft mjög brengluð og mjög auðvelt væri fyrir hinn geðheila að finna betri lausn á vandamálum þeirra.
Því er gaman að fylgjast með Back in Black sögunum því Peter Parker er að kljást við vondan kall sem stjórnast af vísindalegum gruni og með réttlætanlegar rannsóknir að leiðarljósi og einnig vegna þess að Peter Parker fetar nú hina mjóu línu milli góðs og ills og í hans hugarátandi er mjög auðvelt fyrir hann að falla ofan í gryfju hins illa.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.