16.9.2007 | 20:00
Mike Wieringo 1963 - 2007
Mike Wieringo er dáinn. Hann lést fyrir svolitlu síðan eða 12. Ágúst síðasliðin. Ég hafði fengið teiknimyndasögublað fyrir nokkrum dögum þar sem gaf að líta heila síðu tileinkaða minningu mannsins. Í ljósi þessa sá ég mig knúinn til að segja nokkur orð, og jafnvel endurvekja þennan vef með færslum úr heimi myndasagna.
Mike Wieringo, eða Ringo eins og hann var stundum kallaður var einn af færustu teiknurum sem mainstream myndasögugeirinn átti. Hann lést úr hjartaáfalli aðeins fjörtíu og fjögurra ára gamall. Hann var við hestaheilsu og kemur þetta eins og þruma úr heiðskíru lofti að hann skuli allt í einu detta niður dauður. Ég hef lesið óteljandi myndasögur þar sem hann hefur gefið karakterunum líf. Ég á fullt af yndislegum sögum og teikningum eftir hann sem sýnir hina sönnu snilld á bakvið verk hans. Fyrir ykkur hin þá getið þið séð teikningarnar hans hér á toppmyndinni því hann myndskreytti allar þessar Spiderman teikningar.
Wieringo gerði margt á ferlinum sínum. Hann hafði unnið fyrir öll stærstu fyrirtækin; Marvel, Dc Comics og Image til að nefna nokkur. Hann komst inn í leikinn með teikningum sínum fyrir Justice League International snemma á níunda áratugnum. Hann teiknaði Flash í fleiri ár með súperhöfundi Mark Waid þar sem þeir sköpuðu Bart Allen, eða Impulse. Impulse var lítill og ofvirkur krakkafrændi Barry Allens úr framtíðinni sem var með sömu hlaupakrafta og Flash. Núna nýverið hefur hann tekið við Flash titlinum og er hann vaxinn úr grasi frá ofvirka Impulse í fullorðinn Flash. Ég man einna helst eftir honum sem teiknaranum við Sensational Spiderman sem ég safnaði lengi vel í gamla daga. Hans stíll hæfði Sensational Spiderman titlinum frábærlega. Mjór og liðugur líkami Spidermans í höndum Wieringo gaf af sér frábærar teikningar, frábær blöð og æðislegar sögur. Að auki hefur hann teiknað Adventures of Superman, Tellos, Fantastic Four og nú síðast snéri hann sér aftur að Spiderman í Friendly Neighbourhood Spiderman bókunum.
Ég veit ekki af hverju, en mér finnst það svolítið sorglegt að hugsa til þess að ég eigi aldrei eftir að detta niður á einhverja flotta sögu myndskreytta af honum. Það er kannski asnalegt að hugsa til þess að ég taki því eitthvað persónulega til mín að maðurinn sé dáinn því jú, hann var nú bara nafn á blaði. Það er samt með fullri vissu sem ég segi að teiknimyndasöguheimurinn á eftir að sakna hans.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.